• icelandicdirectors@gmail.com
 • Hverfisgata 54, 101 Reykjavík, Ísland

LÖG SKL

SAMÞYKKTIR

Samtaka kvikmyndaleikstjóra

1.gr. Um samtökin

Samtökin heita Samtök kvikmyndaleikstjóra. Heimili samtakanna og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur samtakanna

Tilgangur samtakanna er að:

 • Standa vörð um höfundarrétt kvikmyndaleikstjóra og gæta hagsmuna þeirra..
 • Verja listrænt og fjárhagslegt frelsi kvikmyndaleikstjóra.
 • Bæta aðstöðu kvikmyndaleikstjóra til skapandi kvikmyndagerðar og efla hlutverk leikstjórans sem höfundar.
 • Standa vörð um réttindi og aðbúnað kvikmyndaleikstjóra við störf sín.
 • Stuðla að aukinni menntun og fræðslu fyrir leikstjóra og aðra.
 • Styðja við félagsmenn og eftir atvikum semja fyrir þeirra hönd um sameiginlega hagsmuni og um endurgjald fyrir notkun á verkum þeirra þar sem það á við.
 • Annast umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda kvikmyndaleikstjóra, þ.á m. innheimta tekjur af réttindum og úthluta fjárhæðum til rétthafa.
 • Gerast aðili að norrænum og alþjóðlegum samtökum kvikmyndaleikstjóra.

3. gr. Aðild

Félagar geta orðið þeir kvikmyndaleikstjórar sem vinna óumdeilanlega sem kvikmyndahöfundar og uppfylla að minnsta kosti eitt eftirtalinna skilyrða:

 • hafa leikstýrt einni eða fleiri leiknum kvikmyndum, samanlagður sýningartími ekki minni en 60 mínútur.
 • hafa leikstýrt einni eða fleiri skapandi heimildamyndum, samanlagður sýningartími ekki minni en 60 mínútur.
 • hafa leikstýrt a.m.k. einni leikinni mynd og a.m.k. einni skapandi heimildamynd, samanlagður sýningartími ekki minni en 60 mínútur.

Myndirnar skulu hafa verið sýndar opinberlega í kvikmyndahúsum og/eða sjónvarpi hér á landi, á streymisveitu eða sambærilegum miðlum.

Stuttmyndir verða að hafa verið sýndar á a.m.k. þremur viðurkenndum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum, hafi þær ekki verið sýndar í kvikmyndahúsum eða sjónvarpi, á streymisveitum eða sambærilegum miðlum.

Stjórn metur hvað telst skapandi heimildamynd hverju sinni.

Umsóknir um aðild berist stjórn. Stjórn úrskurðar hvort umsókn uppfylli inntökuskilyrði. Ef umsókn er synjað skal stjórn veita umsækjanda skriflegan rökstuðning. Nýir félagar skulu kynntir á aðalfundi.

4. gr. Úrsögn og brottrekstur

Unnt er að segja sig úr samtökunum skriflega með erindi til stjórnar.

Brjóti félagsmaður í verulegum atriðum gegn lögum samtakanna eða lögmætum samþykktum þeirra er heimilt að vísa honum úr samtökunum með samþykki stjórnar og meirihluta félaga á aðalfundi eða félagsfundi sem skal boða til með sama hætti og til aðalfundar.

5. gr. Félagsgjald

Félagsgjald er ákveðið á aðalfundi. Gjalddagi skal ákveðinn af stjórn.

Aðeins skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi um málefni samtakanna.

6. gr. Aðalfundur

Starfstímabil samtakanna er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.  

Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. ágúst ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti, s.s. tölvupósti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Breytingar á lögum félagsins verða þó aðeins gerðar með samþykki 2/3 fundarmanna. Félagi getur afhent öðrum félaga atkvæði sitt með skriflegu umboði eða óskað eftir því að kjósa rafrænt með minnst viku fyrirvara. Vilji félagsmaður bera upp tillögu á aðalfundi sem krefst atkvæðagreiðslu, skal hann senda tillöguna skriflega til stjórnar SKL svo unnt sé að gera grein fyrir tillögunni í fundarboði

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Ávarp formanns
 3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
 4. Lagabreytingar
 5. Félagsgjald
 6. Þóknun stjórnar
 7. Réttindagreiðslur
  • Almenn stefna um úthlutun réttindagreiðslna til rétthafa
  • Almenn stefna um notkun óráðstafanlegra fjárhæða
  • Almenn fjárfestingarstefna með tilliti til réttindatekna og arðs af fjárfestingu þeirra
  • Almenn stefna um frádrátt frá réttindatekjum og arðs af fjárfestingu þeirra.
  • Notkun óráðstafanlegra fjárhæða
  • Áhættustýringarstefna
  • Kaup, sala eða tryggingarréttur fastafjármuna eða ákvörðunarvald framselt til stjórnar um þetta
  • Samruni og bandalög, stofnun dótturfélaga og kaup á öðrum einingum eða hlutum eða réttindum í öðrum einingum eða ákvörðunarvald framselt til stjórnar um þetta
  • Lántaka, lánveitingar eða útgáfa lánatrygginga eða ákvörðunarvald framselt til stjórnar um þetta
  • Tilnefning og uppsögn endurskoðenda
  • Árleg gagnsæisskýrsla
 8. Kosning stjórnar og varamanns í stjórn til tveggja ára
 9. Kosning tveggja endurskoðenda
 10. Umfjöllun um hagsmunaskrá
 11. Önnur mál

Framhaldsaðalfund skal halda í síðasta lagi mánuði eftir aðalfund, ef ósk kemur fram um það á aðalfundi frá a.m.k. sjö félögum.    

7.gr. Stjórn

Stjórn Samtaka kvikmyndaleikstjóra skipa fimm; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Einnig skal skipa varamann í stjórn. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Formaður má ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil í röð. Hljóti tveir jafna atkvæðistölu í kosningum skal varpa hlutkesti milli þeirra. 

Gangi einhver stjórnarmanna úr stjórn áður en kjörtímabili er lokið skal stjórn annað hvort kalla inn varamann fram að næsta aðalfundi eða boða til aukaaðalfundar þar sem kjörinn skal nýr einstaklingur í stjórn.

Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna situr fund, þ. á m. annað hvort formaður eða varaformaður. Mikilvægar ákvarðanir skal þó eigi taka nema allir stjórnarmanna hafi haft tækifæri til að kynna sér þær, sé þess nokkur kostur.

Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

Aðalfundur tekur ákvörðun um þóknun stjórnar.

8.gr. Daglegur rekstur

Stjórn samtakanna annast daglegan rekstur samtakanna og hefur eftirlit með starfseminni, þ.á m. umsýslu réttindagreiðslna. Stjórn vinnur í þágu samtakanna í samræmi við samþykktir þessar og lög og reglur eins og þau eru hverju sinni.

Samtökin skulu hafa heimasíðu. Á heimasíðunni skal m.a. birta samþykktir og upplýsingar um stjórn samtakanna, almenna úthlutunarstefnu vegna réttindagreiðslna og aðrar upplýsingar sem skulu aðgengilegar á opinberum vef lögum samkvæmt.

9. gr. Tilnefningar, samstarf og umsýsla

Samtökunum er heimilt að gerast aðili að öðrum samtökum eða félögum bæði hérlendis og erlendis og skal aðalfundur taka ákvörðun um slíka aðild. Stjórn samtakanna annast samskipti við hliðstæða erlenda aðila og önnur samtök sem þau eiga aðild að. Stjórnin kemur fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart innheimtusamtökum og öðrum höfund­a­sam­tök­um í samræmi við tilgang samtakanna.

Stjórn samtakanna skipar og/eða tilnefnir í stjórnir og ráð sem samtökin eru aðilar að eða gefst kostur á að tilnefna í s.s. IHM, IKSA, Bíó Paradís, BÍL, Kvikmyndaráð o.fl. nefndir eða ráð sem samtökin kunna að eiga aðild að hverju sinni. Greina skal frá slíkri skipan í ávarpi formanns á aðalfundi og á heimasíðu félagsins.

Stjórn samtakanna kemur ennfremur fram f.h. félagsmanna við gerð annarra heildarsamninga svo og einstakra samninga sem kann að vera óskað eftir. Samtökunum er heimilt að sækja um lögformlega viðurkenningu ráðherra á samningsumboði sínu.

10. gr. Umsýsla réttindagreiðslna

Samtökin annast umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda kvikmyndaleikstjóra skv. 11. gr. Höfundalaga nr. 73/1972. Í því felst m.a. að innheimta tekjur af réttindum og úthluta fjárhæðum til rétthafa.

Úthlutunarstefna skal samþykkt á aðalfundi og útfærir stjórn reglur um úthlutun slíkra fjármuna á grundvelli hennar og hefur umsjón og eftirlit með úthlutun. Samtökunum er heimilt að innheimta umsýslukostnað til að standa straum af kostnaði við umsýslu þeirra á höfundarrétti eða skyldum réttindum og draga hann frá réttindatekjum. Þá er samtökunum einnig heimilt að úthluta fjármagni af réttindatekjum í félagslega, menningarlega og menntunartengda þjónustu. Um slíka fjárúthlutun er nánar fjallað í úthlutunarstefnu og úthlutunarreglum.

Samtökin halda aðskilið bókhald vegna slíkrar umsýslu og birta árlega gagnsæisskýrslu um starfsemina. Skulu reikningsskilaupplýsingar sem fram koma í árlegu gagnsæisskýrslunni endurskoðaðar af löggiltum endurskoðanda í samræmi við lög um endurskoðendur.  

11. gr. Meðferð kvartana og ágreiningsmála  

Unnt er að beina kvörtun til stjórnar samtakanna vegna starfsemi hennar, þ.á m. vegna umsýslu réttindagreiðslna. Stjórn staðfestir móttöku og upplýsir viðkomandi aðila um þá meðferð sem kvörtunin mun fá innan 14 daga. Stjórn svarar kvörtun skriflega og rökstutt.

12. gr.                                                                                                                            

Til að breyta lögum samtakanna eða leggja samtökin niður þarf aukinn meirihluta atkvæða mættra félagsmanna á aðalfundi (2/3).

Ákvörðun um slit samtakanna skal taka á aðalfundi. Við slit samtakanna skal fjármunum þeirra ráðstafað til menningarstarfsemi skv. ákvörðun aðalfundar.

Þannig samþykkt á stofnfundi Samtaka kvikmyndaleikstjóra 11. október 1989 og breytt á aðalfundum 28. desember 1992, 27. desember 1994, 13. janúar 1996, 29. janúar 1998, 9. janúar 2004 og […] júní 2020. 

_

ÚTHLUTUNARSTEFNA SAMTAKA KVIKMYNDALEIKSTJÓRA
VEGNA 11. gr. l. nr. 73/1972 OG l. nr. 88/2019

Samtökin eru aðilar að Innheimtumiðstöð rétthafa (IHM) og annast úthlutun til leikstjóra á greiðslum sem berast frá IHM á grundvelli 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972. 

Stjórn samtakanna setur úthlutunarreglur á grundvelli úthlutunarstefnu þessarar og hefur umsjón og eftirlit með úthlutun. 

Stjórn skal leitast við að bera kennsl á hlutaðeigandi rétthafa og skal auglýsa úthlutun opinberlega. 

Samtökunum er heimilt að innheimta umsýslukostnað til að standa straum af umsýslu og draga af réttindatekjum. Slíkur kostnaður getur falist í rekstrarkostnaði s.s. við gerð og viðhald heimasíðu, launakostnaði, kostnaði vegna aðstöðu, ráðgjafarkostnaði s.s. frá lögmönnum og endurskoðendum svo og öðrum kostnaði sem fellur til í því skyni að samtökin uppfylli skilyrði laga til þess að geta sinnt úthlutun. Umsýslukostnaður skal þó að hámarki nema 25% af heildargreiðslum.

Samtökunum er heimilt að veita félagslega, menningarlega eða menntunartengda þjónustu sem fjármögnuð er með frádrætti frá tekjum af réttindum. Skal slík þjónusta veitt á grundvelli sanngjarnra viðmiða þar sem jafnræðis er gætt. 

Miða skal við að greiða út rétthafagreiðslur eigi síðar en níu mánuðum eftir lok þess fjárhagsárs þegar tekjur af réttindunum voru innheimtar, nema hlutlægar ástæður komi í veg fyrir það. 

Samtökin halda aðskilið bókhald vegna innheimtu og úthlutunar réttindagreiðslna og birta árlega gagnsæisskýrslu um starfsemina í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2019 um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og samþykktir félagsins, sem kynnt skal á aðalfundi. 

Félagar eiga kost á að greiða félagsgjöld með frádrætti af réttindagreiðslu í stað þess að fá sendan reikning. Úthlutunarreglur skulu gagnsæjar og taka mið af eftirfarandi viðmiðum við úthlutun:

 • Að greiðslum sé úthlutað til hlutaðeigandi rétthafa, óháð félagsaðild.
 • Að skilgreint sé hvað þurfi að koma fram í umsókn og hversu lengi hún er í gildi.
 • Að úthlutað sé til leikinna kvikmyndaverka og skapandi heimildakvikmyndaverka.
 • Að stjórn sé falið að flokka og skilgreina kvikmyndaverk fyrir úthlutun með sambærilegum viðmiðum og fyrir aðild að félaginu.   
 • Að úthlutað sé til leikstjóra verka sem hafa birst á úthlutunarári.
 • Að leikstjórar hafi möguleika á að sækja um úthlutun vegna verka sem uppfylla skilyrði til úthlutunar. 
 • Að skilgreint sé lágmarksviðmið til þess að hljóta úthlutun.  
 • Að skilgreint sé hvað verði um óráðstafaða fjármuni sem ekki er unnt að koma til hlutaðeigandi rétthafa.


Samþykkt á aðalfundi í júní 2020.